24.4.2009 | 20:25
Tool
Er með Tool í eyrunum í dag yfir bókunum. Fann þessa lýsingu á tónlistinni þeirra:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2009 | 13:28
Dalur eymdarinnar
Ef það er eitthvað sem menn hafa gaman af að ræða sín á milli og velta sér upp úr þá er það eymd. Augljóst dæmi þessa er fréttaflutningur í fjölmiðlum; það nennir enginn að lesa jákvæðar fréttir, hvað þá ræða þær eitthvað frekar. Reyndar má segja að umræða um jákvæðar fréttir sé ekkert sérlega upplýsandi né skemmtileg þar sem hún er yfirleitt á þessa leið:
FLOTT!
Þetta var flott hjá kisa litla. Ég vildi að ég ætti svona kisu.
Kv, Jakobína kl. 03:21
-----------------------------
hæ bína,
Já! kettirir eru góðir. Fáðu þér einþað þarf einhverja betri ég vildi firir öllum munni að alþíngis menn væru svona.
jóhanna 07:10
Kvitta fyrir innlytið, jákvæt blogg lol
addi 10:13
þurfum við ekki að fá okkur kaffi bína mín
geiri 10:15
-----------------------------
Í einu orði sagt leiðinlegt. Jákvætt þó að geiri vill hitta bínu í kaffi, kannski að við getum haldið áfram með þessa sögu síðar. "Bín' og geiri"? Eitthvað segir mér að það yrði eymdarleg saga.
Eymdarfréttir vikunnar voru án vafa hústaka á Vatnsstígnum. Þar höfðu safnast saman í gömlu húsi skoðanasystur og -bræður sem öll voru þreytt á því að samfélagið deildi ekki skoðun þeirra. Af málflutningum að dæma virtist þetta ágæta fólk telja sig í fullkomnum rétti við að hertaka eignir annarra og gjörði svo í skjóli þess að nytjarétturinn væri eignarréttinum yfirsterkari. Fréttamyndir sýndu illa tilhöfð ungmenni sem huldu andlit sitt, dreifðu rusli og kölluðu á réttlæti. Tekið var viðtal við nokkur þeirra, þar á meðal ungan mann sem sagðist "aldrei hafa komið þangað áður". Aðspurður hvers vegna hann hefði mætt þá sagðist hann hafa "frétt að það ætti að... pfffff...". Það var ekki fyrr en grímuklædd stúlka greip inn í og sagði: "Það á að rífa húsið...!" eða eitthvað á þá leið sem hann sagði "Jáhh..." og viðtalið fjaraði út. Hann vissi ekkert hvað hann var að gera þarna. Hann var bara óánægður og reiður - yfir einhverju.
Í framhaldi af búsáhaldabyltingu vetrarins hafa ýmsir hópar á borð við þennan séð sér leik á borði, lítandi svo á að þeir störfuðu undir verndarvæng vinstriafla sem nú rísa úr öskustó Íslands og reyna að draga okkur hin með sér niður í eldstæðið. Þeir telja að nú sé allt opið og mögulegt í þessum efnum, að á meðan nógu margir standa að baki hugmynd með nógu marga potta, pönnur og trefla sé ekki hægt að standa gegn henni. Ef yfirvöld ("óvinurinn") reyna að grípa inn í og vernda rétt hins almenna borgara eru valdsvínin að verja ólög hinna fáu gegn mannréttindum hinna mörgu. Í þessu kristallast málflutningur hinna heilögu reiðu - þeirra reiði er almennings og þeirra andstæðingar eru andstæðingar okkar allra.
Af viðbrögðum bloggheims var ekki svo að sjá. Ótrúlegt en satt þá voru margir Moggabloggarar sem tóku skynsamlega afstöðu: "Skamm, skamm, svona má ekki gera. Hættið nú að láta eins og kjánar." Inn á milli læddu sér ungir menn sem sögðu "NÚ VERÐUR STRÍÐ!"
Það sem ég hugsaði var: "Fáið þið ykkur vinnu."*
Það er mín skoðun að þetta fólk telur sig eiga rétt á mun meira en það hefur nokkurn tímann nennt að vinna fyrir. Það sér ofsjónum yfir því að aðrir fá meira fyrir mikið á meðan það þarf að sætta sig við lítið fyrir lítið. Það að þau vilja ganga í skítugum fötum þýðir ekki að ég þurfi að gera það.
Svo við höldum áfram með eymdina þá elskum við að tala um hana og sumir svo mjög að þeir hafa gert það að atvinnu sinni. Þeir velta sér upp úr eymd og hennar systrum, biturð og reiði, með þeim afleiðingum að ef eymd yrði útrýmt þá myndu þeir missa vinnuna. Þessa nöturlegu staðreynd eru þessir einstaklingar meðvitaðir um og því reyna þeir með öllum ráðum að viðhalda eymdinni. Kannski að Vinstri-grænir teljist til þessa hóps en mér virðist það vera flokkur sem byggir tilvist sína á óánægju eingöngu. Við skulum sjá hvernig flokknum sem reistur var með búsáhöldum tekst að hafa hemil á eigin eldamennsku.
*Ég átta mig á að í ljósi aðstæðna er þetta hægara sagt en gert. Setninguna má lesa á fleiri en einn veg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.4.2009 | 10:14
Athugasemd
En það bar til um þessar mundir að...
-Maður stóðst ekki mátið lengur og fann sig knúinn til skrifta enn á ný. Fyrri skrafskjóðan, fths.blog.is, lagðist til hinstu hvílu og penninn undir feld fyrir þó nokkru. Þetta má helst rekja til þess að á Moggablogginu er ákaflega erfitt að halda úti góðu bloggi svo vel sé, svo steingeld er umræðan þar um alla heimsins kanta og vankanta. Hver kerfissugan á fætur annarri hrópar í kapp við sjálfa sig um vangetu hinna ríku og máttugu til að toga hana upp úr ræfildómnum. Staurblindir stuttbuxnastrákar, perverteraðir í hægrimennsku sinni og sveittir í baráttunni gegn upplýsingu samfélagsins um tryggðarleysið við málefnin og herrahollustuna framar þeim. Upplýsingasnauðar smásálir, að því er virðist eins óteljandi og þær eru óþolandi, bölva og ragna yfir því að þeirra skoðanir eru ekki "jafngildar" og annarra þegar þeirra skoðanir eru yfirleitt sambærilegar við "Skjótt ikkur bara!". Bitrir fjölskyldufeður rífast að næturlagi í náunganum um auðvaldssinna og siðspillingu, bæði mót- og meðmælendur ámóta málefnalausir enda með ekkert til grundvallar sínum skoðunum annað en Morgunblaðið og eigin reynslu sem oftar en ekki er síður en svo víðtæk. Smákrakkar henda niðursuðudósum í lögreglumenn, hvattir áfram af fjúkyrðasöfnurum sem dæla fyrirsögnum inn í ritstýrða "þjóðfélagsumræðuna" sína um nauðsyn ofbeldis til sigurs, illsku annarra og réttmæti persónuárása. Friðsamar síður inn á milli, ljóðrænar og hugvekjandi, mengaðar af rætnum athugasemdum hinna heitu og hatursfullu.
Kannski að þetta hafi alltaf verið örlög bloggsamfélagsins - í stað vettvangs heilbrigðra skoðanaskipta er þetta nú niðurdrepandi niðursuðudós bældrar biturðar sem hvergi fær útrás nema á andlitslausum vefnum þar sem menn þurfa ekki að standa augliti til auglits við neinn nema sjálfan sig, kvölds og morgna, með tannburstann að vopni.
Þetta er kannski líka ástæða þess að ég hef ákveðið að stofna nýja síðu. Hér ætla ég að skrifa inn vangaveltur, líklega tvisvar í viku eða svo, og birta tilkynningar þess efnis á Facebook. Það er yfirlýst stefna að tengja ekki færslur við fréttir, bæði til þess að veita örlögunum ofannefndu mótspyrnu og til þess að dragast ekki inn í úrkynjaða kreppuumræðuna þar sem hátt bylur í tómum tunnum og besserwisserar slengja fram ómögulega snörpum lausnum á risavöxnum vandamálum, gagnrýnilaust ljúkandi spánni með: "- og það er nú bara eins og það er".
Eins og segir í umfjöllun um síðuna verður lögð áhersla á ýmislegt neikvætt í mínum skrifum. Það er ákveðin list að vera neikvæði gaurinn og til þess að vera ósamkvæmur sjálfum mér sem sá gaur verð ég að segja að mér ferst það ágætlega úr hendi. Ekki ber svo að skilja að allar færslur komi til með að fjalla um neikvæð málefni né heldur fjalla um jákvæð málefni á neikvæðan hátt. Kannski að manni sé hollast að spila þetta eftir eyranu. Ég hef nú sjálfur oft talist stuttbuxnastrákur og það veit Guð að ég hef tekið á honum stóra mínum í bloggumræðunni án þess að hafa hundsvit á því sem ég hef sagt og skrifað. Kannski er enn svo.
Ætli það sé þá ekki bara best að koma sér að efninu:
...að ég smakkaði ilmvatnið mitt.
Það er ógeðslegt bragð af ilmvatni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)