Dalur eymdarinnar

Mótmælandi sem við vitum hvað syngur?Ef það er eitthvað sem menn hafa gaman af að ræða sín á milli og velta sér upp úr þá er það eymd. Augljóst dæmi þessa er fréttaflutningur í fjölmiðlum; það nennir enginn að lesa jákvæðar fréttir, hvað þá ræða þær eitthvað frekar. Reyndar má segja að umræða um jákvæðar fréttir sé ekkert sérlega upplýsandi né skemmtileg þar sem hún er yfirleitt á þessa leið:

FLOTT!

Þetta var flott hjá kisa litla. Ég vildi að ég ætti svona kisu.

Kv, Jakobína kl. 03:21

-----------------------------

hæ bína,

Já! kettirir eru góðir. Fáðu þér einþað þarf einhverja betri ég vildi firir öllum munni að alþíngis menn væru svona.

jóhanna 07:10

Kvitta fyrir innlytið, jákvæt blogg Wink lol

addi 10:13

þurfum við ekki að fá okkur kaffi bína mín

geiri 10:15

-----------------------------

Í einu orði sagt leiðinlegt. Jákvætt þó að geiri vill hitta bínu í kaffi, kannski að við getum haldið áfram með þessa sögu síðar. "Bín' og geiri"? Eitthvað segir mér að það yrði eymdarleg saga.

Eymdarfréttir vikunnar voru án vafa hústaka á Vatnsstígnum. Þar höfðu safnast saman í gömlu húsi skoðanasystur og -bræður sem öll voru þreytt á því að samfélagið deildi ekki skoðun þeirra. Af málflutningum að dæma virtist þetta ágæta fólk telja sig í fullkomnum rétti við að hertaka eignir annarra og gjörði svo í skjóli þess að nytjarétturinn væri eignarréttinum yfirsterkari. Fréttamyndir sýndu illa tilhöfð ungmenni sem huldu andlit sitt, dreifðu rusli og kölluðu á réttlæti. Tekið var viðtal við nokkur þeirra, þar á meðal ungan mann sem sagðist "aldrei hafa komið þangað áður". Aðspurður hvers vegna hann hefði mætt þá sagðist hann hafa "frétt að það ætti að... pfffff...". Það var ekki fyrr en grímuklædd stúlka greip inn í og sagði: "Það á að rífa húsið...!" eða eitthvað á þá leið sem hann sagði "Jáhh..." og viðtalið fjaraði út. Hann vissi ekkert hvað hann var að gera þarna. Hann var bara óánægður og reiður - yfir einhverju.

Í framhaldi af búsáhaldabyltingu vetrarins hafa ýmsir hópar á borð við þennan séð sér leik á borði, lítandi svo á að þeir störfuðu undir verndarvæng vinstriafla sem nú rísa úr öskustó Íslands og reyna að draga okkur hin með sér niður í eldstæðið. Þeir telja að nú sé allt opið og mögulegt í þessum efnum, að á meðan nógu margir standa að baki hugmynd með nógu marga potta, pönnur og trefla sé ekki hægt að standa gegn henni. Ef yfirvöld ("óvinurinn") reyna að grípa inn í og vernda rétt hins almenna borgara eru valdsvínin að verja ólög hinna fáu gegn mannréttindum hinna mörgu. Í þessu kristallast málflutningur hinna heilögu reiðu - þeirra reiði er almennings og þeirra andstæðingar eru andstæðingar okkar allra. 

Af viðbrögðum bloggheims var ekki svo að sjá. Ótrúlegt en satt þá voru margir Moggabloggarar sem tóku skynsamlega afstöðu: "Skamm, skamm, svona má ekki gera. Hættið nú að láta eins og kjánar." Inn á milli læddu sér ungir menn sem sögðu "NÚ VERÐUR STRÍÐ!"

Það sem ég hugsaði var: "Fáið þið ykkur vinnu."*

Það er mín skoðun að þetta fólk telur sig eiga rétt á mun meira en það hefur nokkurn tímann nennt að vinna fyrir. Það sér ofsjónum yfir því að aðrir fá meira fyrir mikið á meðan það þarf að sætta sig við lítið fyrir lítið. Það að þau vilja ganga í skítugum fötum þýðir ekki að ég þurfi að gera það. 

Svo við höldum áfram með eymdina þá elskum við að tala um hana og sumir svo mjög að þeir hafa gert það að atvinnu sinni. Þeir velta sér upp úr eymd og hennar systrum, biturð og reiði, með þeim afleiðingum að ef eymd yrði útrýmt þá myndu þeir missa vinnuna. Þessa nöturlegu staðreynd eru þessir einstaklingar meðvitaðir um og því reyna þeir með öllum ráðum að viðhalda eymdinni. Kannski að Vinstri-grænir teljist til þessa hóps en mér virðist það vera flokkur sem byggir tilvist sína á óánægju eingöngu. Við skulum sjá hvernig flokknum sem reistur var með búsáhöldum tekst að hafa hemil á eigin eldamennsku.

*Ég átta mig á að í ljósi aðstæðna er þetta hægara sagt en gert. Setninguna má lesa á fleiri en einn veg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér fannst þetta nú bara nokkuð hressandi, þrátt fyrir að vera óttalegt smámál. Braut allavega upp nokkuð þreytandi fréttaflutning af styrkjum til stjórnmálaflokka.

arnar geir (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 15:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband